16.1.2007 | 20:25
Um tungumál Forn-Egypta.
Það virðist ljóst í dag að borgríki og það sem kallast "siðmenning" hefur orðið til á mörgum afmörkuðum svæðum jarðar óháð þróun annarsstaðar. Þannig þróuðu Egyptar sína siðmenningu 3100 fyrir Krist og Mayar sína eigin siðmenningu þúsundum ára síðar. Ekki er hægt að segja að siðmenningin hafi breiðst út frá einum punkti og þegar við ræðum um siðmenningu þá eigum við yfirleitt við borgríki eða flókin samsett samfélög. Engin ein leið eða einföld þróun virðist vera frá einfaldari samfélagsgerð til flóknari samfélagsgerðar enda þótt þetta ferli hafi endurtekið sig aftur og aftur í gegnum söguna.
Eitt sem einkennir flókin samfélög er verkaskipting og ákveðin miðstýring. Einhvers konar ríki verður til. Elstu borgríkin eins og Ur, sem Abraham var frá og Catal Huyuk voru ein elstu akuryrkjusamfélög heimsins og byggðu á landbúnaði. E.t.v. má segja í vissum skilningi að flest samfélög heimsins byggi á landbúnaði enn í dag.
Annað sem einkennir borgríkin og hin flóknu samfélög er tungumál og jafnvel einhvers konar ritmál. Forn-Egypska er skyld Semitískum og Hamitískum tungumálum. Ritlistin barst til Egyptalands frá Súmer og Egyptar þróuðu sitt einstaka ritmál eða hyeróglýfur. Grunnur Forn Egypsku voru 24 tákn. Öll voru þau samhljóðar eða hálf-samhljóðar og er einkennandi fyrir Forn-Egypsku að engin tákn voru til þess að tákna sérhljóða. Hýeróglýfísku táknin voru um 700 talsins og og táknuðu mismunandi fónetísk sambönd. Hægt var að raða þeim saman til þess að mynda orð. Algengast var að skrifa á papýrus en sem betur fer voru táknin einnig rist í stein og hafa varðveist þannig. Skrifarar í Forn-Egyptalandi voru mikils metnir og þurftu að ganga í sérstakan skriftarskóla. Til eru Forn-Egypskar bókmenntir, einkum svokallaðir Vísdómstextar og hafa þeir gefið mikilsverða innsýn í heimsmynd og líf Forn-Egypta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.