13.1.2007 | 16:15
Nokkur meginþemu í rússneskum bókmenntum
Rússneskar bókmenntir eru með þeim afrekum sem stórkostlegust eru á sviði mannsandans. Einkum er þá verið að vísa til 19.aldarinnar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Á þessu tímaskeiði urðu til margbrotin bókmenntaverk sem eru í senn sérstæð fyrir Rússland en kallast einnig á við hinn vestræna bókmenntaheim. Bækur eins og Anna Karenína og Glæpur og refsing hafa verið lesnar sem skemmtiefni í gegnum tíðina en markmið rússneskra bókmennta hefur ætíð verið annað og meira en að skemmta fólki, þótt ekki skuli mælt gegn því hér að bækur séu skemmtilegar, vegna þess að annars nennir enginn að lesa þær.
Hlutverk rússneskra bókmennta er hvorki meira né minna en að lýsa veruleikanum í sínum margbreytilegu myndum og einnig að lýsa því hvernig mannshugurinn stendur agndofa og ráðþrota gagnvart tilgangi lífsins sem í rússneskum bókmenntum er yfirleitt alls ekki skiljanlegur. Morðinginn Rodion Romanovich Raskolnikov í Glæp og refsingu stendur á brún hengiflugs þar sem óvissan og myrkrið tekur við. Þetta hyldýpi sem rússar finna svo oft fyrir tengist því hversu Rússland er gífurlega stórt og víðfeðmt land og hversu erfitt er að stjórna slíku landi. Það er einkennandi fyrir rússnesku skáldsöguna að hún tekur alvarlega á dýpstu rökum tilverunar, hlutum sem flestir rithöfundar á Vesturlöndum forðast að nefna eða skauta framhjá í umræðum sínum um dýpstu rök tilverunar.
En meira um það síðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.